Gagn og gaman I og II

Gagn-og-gaman-web

Gagn og gaman kom fyrst út haustið 1933 og þá í einu hefti. Bókin var samvinnuverkefni Ísaks Jónssonar og Helga Elíassonar sem fengu Tryggva Magnússon listmálara til að gera teikningar. Bókin var þá enn í mótun og við endurskoðun hennar árið 1941 var henni skipt í tvö hefti.

Með nýrri og breyttri útgáfu árið 1955 var fyrra heftið prentað í lit. Var það fyrsta skyldunámsbók landsmanna sem var litprentuð. Þórdís dóttir Tryggva teiknaði nýjar myndir við þá kafla sem bætt var við. Seinna heftið var litprentað 1959. Var verkið þá komið í endanlega gerð.

Gagn og gaman var áhrifarík kennslubók. Hún var nær einráð við lestrarkennslu yngstu barna í hálfa öld. Bókin byggðist á hljóðaðferð við lestrarkennslu sem með þessari bók var innleidd í íslenskum skólum. Talið er að um 200 þúsund eintök hafi verið prentuð af fyrra hefti bókarinnar, síðast var það prentað 1985. Bækurnar hafa verið ófáanlegar um áratugaskeið.

Gagn og gaman er mjög vel uppbyggð kennslufræðilega enda þaulprófuð við kennslu í lestri.
Bókin var liður í fjölþættu skólastarfi þar sem börnin voru látin vinna og leika með stafina til að festa form þeirra og hljóð betur í minni.

Gagn-og-gaman-2-FRAMAN-768x1172

Gagn og gaman, 2. hefti, er framhaldslesbók þar sem áhersla er lögð á að æfa stafasambönd, samanber ábendingar neðanmáls. Nokkur þyngdarmunur er á heftunum og því voru börnin oft látin æfa sig á léttu lesefni áður en byrjað var á síðara heftinu.

Talið er að um 200 þúsund eintök hafi verið prentuð af fyrra hefti bókarinnar og 120 þúsund eintök af því síðara. Bækurnar voru ófáanlegar um rúmlega 30 ára skeið, en fyrra heftið kom aftur út haustið 2017 og það síðara 2021..

Heimild:
Gagn og gaman I og II | Bæjarins Besta (bb.is)

No comments yet.

Leave a Reply