Búnaðarfélag Íslands / Verkfærasýningin 1921

Ingvar Gíslason sendi mér upplýsingarnar um þennan minnispening og myndirnar hér fyrir neðan, textinn er tekinn úr bók í hans eigu.

Hér fyrir neðan er vitnað í bókina og textinn tekinn orðréttur úr henni.

Tilvitnun hefst.

Minnispeningur verkfærasýningarinnar eða Búnaðarfélags Íslands úr silfri frá árinu 1921 barst safninu árið 1972 frá Ásgeiri Jónssyni (sjá árið 1921).  Þremur árum áður barst til safnsins bronseintak af þessum sama peningi, en bronspeningarnir voru eflaust prufueintök, enda komu þau fram í dagsljósið mun seinna, eða þegar danskur myntsafnari og Íslandsvinur, Otto Christensen að nafni, fór á stúfana í leit að upplýsingum um útgáfuna.
Eftir sem áður er mjög lítið vitað um þennan pening.  Mótagröftur og slátta var framkvæmd hjá Frits Heimbürger, Købmagergade 63-65 í Kaupmannahöfn, en sjálf teiknunin eða fyrirmyndin er eftir Einar Jónsson myndhöggvara.  Er þetta mjög vandaður peningur að hönnun, mótagreftri og sláttu.
Mjög er óljóst til hvers peningurinn var notaður, því sumir hafa nefnt hann verðlaunapening en aðrir minnispening.  Eitt er þó alveg öruggt: fjöldi sleginna eintaka var afar lítill, ef til vill ekki nema örfáir tugir peninga.  Í dag er aðeins vitað um fimm eða sex eintök af silfurgerðinni og fjögur eintök eru þekkt úr bronsi.
Siflurpeningurinn, sem hér er sýndur, barst safninu í janúar 1972 frá Ásgeiri Jónssyni.  Hann var upphaflega gefinn Metúsalem Stefánssyni ráðunaut,  en hann gaf Ásgeiri peninginn um 1930.
Auk Metúsalems er vitað að Árni G. Eylands búfræðingur og ráðunautur fékk peninginn, sjálfsagt fyrir þátt sinn í sýningunni.
Sjálft tilefnið að útgáfu peningsins hefur verið nefnt ýmsum nöfnum.  Sýningarskráin kallar það Búsáhaldasýningu, en Morgunblaðið frá 28.júní 1921, daginn eftir opnun sýningarinnar, kallar það Landbúnaðarsýningu.  Sýning þessi var haldin í gamla Kennaraskólanum við Laufásveg og einnig á svæði Gróðrarstöðvarinnar handan við götuna.  Heyrst hafði að Kristján konungur X, sem staddur var á Íslandi um þessar mundir, ætti að opna sýninguna.  Svo fór þó ekki sökum anna konungs, og kom það í hlut þáverandi atvinnumálaráðherra, Péturs Jónssonar frá Gautlöndum að opna hana.  Til stóða að sýningin væri opin í eina viku, en sökum vinsælda og heimsóknar amerískra ferðamanna var sýningin framlengd um einn dag og lauk því að kvöldi 4. júlí 2921.

Tilvitnun endar.

No comments yet.

Leave a Reply