Unga Ísland – Myndablað fyrir börn og unglinga – XXI ÁRGANGUR
1. blað – Reykjavík Janúar 1926 – 21. ár.
Tryggvi Magnússon listmálari
Haustið 1916 kom í Gagnfræðaskólann á Akureyri piltur að nafni Tryggvi Magnússon, ættaður úr Strandasýslu, bróðursonur Stefáns skálds frá Hvítadal.
Hann var fátæklega búinn og ljet ekki mikið yfir sjer, en við nánari kynningu komu í ljós hjá honum miklar sjergáfur og einkennilega staðgóð þekking á ýmsu þjóðlegu, sem virtist hafa mótað skaplyndi hans meira en títt er um unglinga á þeim aldri.
Skólanámið gekk honum greiðlega, því að hann var bæði greindur og fróðleiksfús. En þar sem flestir aðrir ljetu sjer nægja að lesa undir tímana, ljet hann ekkert færi ónotað til þess að afla sjer víðtækari fróðleiks, sem að vísu heyrði ekki undir skólanámið, en miðar eigi að síður til þess að þroska manninn. Þannig byrjaði hann í Gagnfræðaskólanum að lesa bæði þýsku og latínu, þó að það væru ekki skyldu námsgreinar. Ein námsgrein var það þó, sem engum tjáði að þreyta við hann, og sem hann hafði meiri leikni í þegar hann kom í skólann, heldur en flestir aðrir, þegar þeir fara þaðan eftir þriggja vetra nám. Sú námsgrein var teikning. Það var eigi aðeins, að hann skaraði fram úr öllum öðrum í því að teikna og mála með vatnslitum eftir ýmsum fyrirmyndum, sem var aðallega kent þar í skólanum, heldur teiknaði hann og málaði myndir af ýmsum atburðum, einkum þjóðsögulegum og fornsögulegum, eftir sínum eigin hugmyndum. Og það voru engin smávægileg viðfangsefni, sem hann tók þá fyrir. Sem dæmi má nefna: Ragnarök, hvarf síra Odds frá Miklabæ, viðureign Grettis við óvættinn í Eyjadalsárfossi og Skarphjeðinn og Þorkel hák. Tvær þær síðastnefndu gaf hann út á póstkorti, þegar hann var á Akureyrar skólanum.
Burtfararpróf frá Gagnfræðaskólanum á Akuryeri tók hann vorið 1919 og sigldi um haustið eftir til Kaupmannahafnar og var þar um veturinn á undirbúningsskóla undir Lista-háskólann þar. Framan af næsta vetri hjelt hann áfram í sama skóla, en síðari hlutann á listasafni ríkisins og um vorið lagði hann fram myndir, til þess að komast inn í Listaháskólann og gekk það greiðlega.
Um sumarið (1921) fór hann til Íslands, en varð ilt til fjár og sá sjer því ekki fært að ganga í Lista-háskólann veturinn eftir og rjeðst sem háseti á skip er gekk vestur til Ameríku. Þar dvaldi hann til vorsins 1923, vann fyrst fyrir sjer með trjesmíði, en gekk síðan í listaskóla í New York. Eftir það kom hann aftur til Evrópu sem háseti, eins og hann hafði fari, og stefndi nú til Þýskalands. Þar var hann á listaskóla í Dresden til sumarsins 1924 er hann kom til Íslands aftur.
Þegar hann kom frá Þýskalandi hjelt hann sýningu á verkum sínum í Reykjavík og var hennar getið mjög lofsamlega í dagblöðunum. Síðan hefir hann dvalið lengst af í Reykjavík og starfað að ýmiskonar teikningum og málverkum.
Stærsta málverk sitt málaði hann í fyrravetur eftir þjóðsögunni “Úlfhildur álfadrottning”. Það er um 180 cm. á hæð og 130 cm. á breidd. Það gefur innsýn í álfahöllina, þar sem kongur og drotning sitja í hásæti, en aðrir dansa og leika á hljóðfæri fyrir þeim. Þetta málverk er mjög fagurt bæði að línum og litasamræmi, enda mun það hafa valdið mestu um, að honum var veittur utanfararstyrkur á síðasta Alþingi til frekara náms. Hefir hann nú í hyggju að ferðast til Parísar, til þess að fullkomna sig í list sinni.
Það er enginn vafi á því að T.M. á mikla framtíð fyrir höndum sem listamaður. Teikningar hans hafa þegar náð hjer miklum vinsældum. Og þó að hann hafi víða farið, hefir hann ekki glatað þeirri sjálfmentun, sem hann hafði aflað sjer í íslenskum þjóðsögum og fornsögum, helsur aukið hana og frjóvgað á marga lund og það er hún, sem einkennir mest list hans.
G.I.
Hér er hægt að lesa allt blaðið: Unga Ísland – 1. tölublað (01.01.1926) – Tímarit.is
No comments yet.