Fornmannaspilin 1930

Uppfært 21.ágúst 2024

Útgefandi: Magnús Kjaran
Útgáfuár: Fyrsta útgáfa 1930
Prentun: Altenburg í Þýskalandi
Hönnun/Teikning: Tryggvi Magnússon
Texti á spili:
Mynd á spili: Vopnamyndir
Bök & Litir: Nokkur spilabök hafa verið prentuð. Litirnir eru Appelsínugult / Rautt / Blátt í nokkrum afbrigðum.


Fornmannaspilin voru fyrst seld á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930.

Spilin voru prentuð í Altenburg í Þýskalandi og var fyrsta útgáfan í þremur upplögum og merkt einn, tveir og þrír. Allar þessar útgáfur voru eins að mestu, en útgáfa númer eitt var þó öllu vandaðri en hinar. Litir á bakhlið spilanna þar voru frábrugðnir spilunum í hinum útgáfunum og var prentað í gulli og silfri, spilastokkurinn var einnig með upphleyptri gylltri prentun eins og sést á myndum hér neðar á síðunni af spilastokk nr 1.

Í fyrstu fjórum upplögunum sem voru prentuð höfðu hjarta sjöurnar áletrunina “Öll rjettindi áskilin Tryggvi Magnússon Reykjavík”.  Í þessum fjórum upplögum voru spilin innsigluð að fullu, innpökkuð í pappír ofan í spilastokknum,  eftir að Magnús Kjaran eignaðist útgáfuréttinn þá var innsigli vafið utan um spilin í eldri spilastokkunum en innsiglið náði ekki yfir enda spilanna. Sjá myndir hér fyrir neðan.

Árið 1937 eignaðist Magnús Kjaran kaupmaður útgáfurétt á spilunum og eftir það var áletrunin “Öll rjettindi áskilin Tryggvi Magnússon Reykjavík” tekin af hjarta sjöunum en í staðinn var flipinn á spilastokknum merktur með áletruninni “MEÐ EINKARÉTTI: MAGNÚS KJARAN, REYKJAVÍK”

Ég á til 5 mismunandi útgáfur af þessum spilastokk í safninu, þar á meðal einn stokk úr fyrsta upplagi,  hann er blár og er merktur nr.1.  Svo á ég tvo stokka úr öðru upplagi, þeir eru í sitthvorum litnum og eru merktir  nr.2, þessir spilastokkar eru á myndunum hér neðar á síðunni.

Ég á til einn stokk úr 4 upplagi, hann er frábrugðinn upplagi 1 og 2 að því leiti að spilastokkurinn er annar. Það eina sem gefur til kynna að hann sé úr upplagi 4 er merkingin á innsiglinu sem er utan um spilin. (Sjá myndir hér fyrir neðan).  Ég hef hins vegar aldrei séð spilastokk úr upplagi 3 og veit ekki hvernig hann lýtur út en ég geri ráð fyrir því að hann líti að mestu leiti út eins og stokkarnir í upplagi 1 og 2.

Hér fyrir neðan sjáið þið myndir af Fornmannaspilum, af fyrstu þremur spilunum þá er spilið sem er nánast appelsínugult á litinn eldra heldur en hin tvö og eftir minni bestu vitund er það prentað í Ísafoldarprentsmiðju á meðan öll hin eru prentuð hjá Altenburg í Þýskalandi. En svo eru öftustu tvö spilin elst af þessum öllum, það eru spilabök úr spilastokk Nr.2 úr fyrstu prentun.


Spilastokkar nr.1 úr fyrstu prentun af Fornmannaspilunum voru með upphleyptri gyllingu á vopnamyndunum utan á stokknum, einnig var gylling á umgjörð spilanna.  Það er nú til blár stokkur af þessari útgáfu í safninu mínu, sá stokkur er ennþá innsiglaður eins og stokkarnir á myndinni hér fyrir neðan, stokkarnir á myndinni eru á Þjóðmynjasafni Íslands.

Hér fyrir neðan eru myndir af stokkum nr.1 sem eru á þjóðminjasafni Íslands.  Blái stokkurinn er einnig til í mínu safni og eru þetta einu stokkarnir úr þessari prentun sem ég veit um.


Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndir af spilastokkum Nr.2 úr fyrstu prentun sem kom út árið 1930.  Þessir stokkar eru nú til í safninu.


Hér fyrir neðan sérð þú myndir af Fornmannaspilunum í hulstri sem er eins og bók í laginu. Þessar “bækur” eru til í safninu. Rauða bókin er frá árinu 1936 en árið 1937 eignast Magnús Kjaran einkaréttinn á útgáfu spilanna og sést stimpillinn hans á hinni útgáfunni.


Hér fyrir neðan eru myndir af spilastokkum sem eru í safninu, spilin í gömlu stokkunum eru öll með hvítum bakgrunni á framhlið en spilabakið er nánast appelsínugult. Þú sérð að einn stokkurinn er með svarthvítum ásum á meðan það eru litir í öðrum, og svo er mismunur á pakkalokinu, áletrun á einum en ekki hinum. Stokkurinn sem er ekki með áletruninni á pakkalokinu er með svarthvítum ásum en stokkarnir sem eru með áletruninni “Með einkarétti: Magnús Kjaran, Reykjavík” eru með lit í ásunum.

Spilin í pökkunum sem eru yngri að sjá eru ekki með hvítan bakgrunn, á þeim er röndóttur bakgrunnur og ásarnir eru með lit í munstrinu.

 

No comments yet.

Leave a Reply