Issued Year: 1994
Face Value: 1000 Kronur
Weight: 30g 92.5% Silver
Proof KM32,33,34 Mintage only 3000pcs
50th Anniversary of Icelandic Republic
With original mint box and COA
Forsetamynt MYNT Þrír silfurpeningar ÚTGÁFA Í TILEFNI AFMÆLIS ÍSLENSKA LÝÐVELDISINS Myndefni: Skjaldarmerkið og þrír fyrstu forsetar lýðveldisins – Teiknari: Þröstur Magnússon SEÐLABANKINN hóf hinn fyrsta mars síðastliðinn sölu á silfurmynt, þrem peningum, sem gefnir eru út í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Peningarnir eru úr sterling-silfri, crown-stærð, eða 39 mm í þvermál og vegur hver þeirra 30 grömm. Þetta er gjaldgeng mynt, 1.000 krónur að nafnverði, hver peningur. Peningarnir eru 3 í hverju setti. Skjaldarmerki lýðveldisins er á framhlið, og mynd af þrem fyrstu forsetum lýðveldisins á bakhlið. 3.000 sett eru í sérunninni gljásláttu og 6.000 sett í venjulegri sláttu. Forsetamyntin er seld í vönduðum gjafaöskjum. Kosta 3 peningar saman í öskju 7.800 krónur sérslegnir en 5.200 venjuleg slátta. Einstakir peningar kosta 2.900 og 1.900 krónur.
Athyglisvert er hve fá settin eru. Árið 1974 voru slegnir 2 silfurpeningar, 500 og 1.000 krónur að verðgildi, 70.000 stykki í venjulegri sláttu og 41.000 af sérsláttunni. Af silfurmyntinni frá 1986 voru 15.000 eintök í venjulegri sláttu og 5.000 sem skrautmynt. Ég er ansi hræddur um, að þessi 9.000 sett núna seljist upp alveg í hvelli og ættu þeir, sem vilja eignast þessa peninga, að kaupa þá sem fyrst. Eigulegir hlutir á góðu verði, einnig sem gjafir fyrirtækja til að treysta viðskiptabönd. Bankar og sparisjóðir um allt land selja myntina.
Erfitt er að dæma hvern pening. Þröstur Magnússon, sem teiknaði þá, er afar vandvirkur listamaður, en það er tvennt sem ég hefði haft öðruvísi. Augasteina vantar og hárgreiðslan er gróf. Myntin er slegin hjá konunglegu bresku myntsláttunni og þar eru sannarlega menn sem kunna til verka og hefðu látið koma fram hvert fíngreitt hár á höfðum forsetanna. Augasteinar hefðu gjört forsetana, sem margir landsmenn muna, jafn lifandi á myntinni sem þeir eru í minningunni.
Opnað aftur
Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafnsins í Einholti 4 hefir nýlega verið opnað aftur eftir nokkrar breytingar. Þar eru að finna teikningar Þrastar Magnússonar af forsetunum ásamt öðru er tengist þessari sláttu. Geta menn því skoðað ýmsar hugmyndir að gerð forsetamyntarinnar og borið saman við það, sem varð. Myntsafnið er skemmtilegt í hinum nýja búningi sínum. Ég hvet alla til að sækja það heim, opið er á sunnudögum milli klukkan 14 og 16.
Þökk sé Birgi Thorlacius, fyrrum ráðuneytisstjóra, fyrir sögurnar.
Ragnar Borg.
Forsetasögur
SVEINN Björnsson var fyrsti forseti lýðveldisins. Hann var lengst af sendiherra. Ég man eftir honum bæði sem ríkisstjóra og forseta. Svipmikill og góðlegur maður. Menn voru ánægðir, er hann var kjörinn forseti af alþingismönnum á Þingvöllum 17. júní 1944. Sveinn Björnsson settist að á Bessastöðum. Þegar viðbótarsalurinn var byggður þar, var það Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, sem teiknaði viðbygginguna. Þegar smíðin var langt komin stóðu Sveinn og Gunnlaugur eitt sinn í miðjum salnum og athuguðu loftið. Segir Sveinn þá: “Getur það verið, að loftið í þessum enda þarna sé aðeins hærra en í hinum endanum?” Gunnlaugur taldi að svo gæti ekki verið, en mældi samt hæðina og í ljós kom, að Sveinn hafði séð rétt. Það munaði örlitlu. Þótti Gunnlaugi þessi skarpskyggni með ólíkindum. Sveinn Björnsson hafði mjög næman smekk.
ÁSGEIR Ásgeirsson varð forseti árið 1952, eftir fyrstu almennu forsetakosningarnar. Hann var vel þekktur og vinsæll. Var forseti Alþingis á Alþingishátíðinni, þingmaður í mörg ár og bankastjóri. Menntaður guðfræðingur. Þau komu eitt sinn heim til foreldra minna, er við bjuggum á Ísafirði, frú Dóra og Ásgeir. Höfðu verið á ferðalagi um kjördæmi Ásgeirs, Vestur-Ísafjarðarsýslu. Ásgeir hafði verið þar þingmaður lengi, fyrst sem framsóknarmaður, síðan óháður og nú bauð hann sig fram sem alþýðuflokksmaður. Frú Dóra sagði svo frá, að þau hefðu hitt bónda einn í kjördæminu. Spurði Ásgeir hann hvort hann myndi ekki fylgja honum í komandi kosningum. “Jú, jú, Ásgeir minn,” sagði bóndinn. “Ætli ég fylgi þér ekki hringinn.” Við einar kosningar lögðu andstæðingar hans ofurkapp á, að kjördagar yrðu tveir, til þess að auðvelda kjörsókn. Ásgeir var þessu fremur andvígur og sagði: “Mér hefur alltaf dugað einn dagur.”
KRISTJÁN Eldjárn varð forseti árið 1968. Hann var mikill fræðimaður um mynt og minnispeninga, auk margs annars. Hafði afbragðs smekk á gerð minnispeninga svo sem þeir 3 peningar sýna, sem hann sá um að slegnir væru; Þjóðminjasafns-, Sigurðar Nordal- og Ásu Wright-peningarnir. Þeir voru slegnir hjá konunglegu myntsláttunni í Kaupmannahöfn og myntmeistarinn þar, Harald Salomon, gróf mótin. Kristján hafði einstakan frásagnaranda og var frábær penni. Munu bækur hans lengi í minnum hafðar. Þegar Kristján Eldjárn var í forsetaframboði, kom hann á æskuslóðir sínar og gamall vinur hans sagði, er hann kvaddi hann: “Vertu nú blessaður og sæll og Guð veri með þér.” “Heldurðu að hann sé ekki örugglega með mér”, spurði Kristján. “Það má andskotinn vita,” svaraði karlinn.
No comments yet.